Monday, September 18, 2006

Táslur

Um daginn fór ég að spá voðalega mikið í táslum. Ákveðinn partur af fólki sem er okkur mikilvægt þekkjum við fyrst og fremst í gegnum táslunar þeirra. Stoppið aðeins og hugsið um þetta.

Fyrstu kynni okkar af móður okkar: Við komum á blússandi ferð í miðri fæðingu og stingum hausnum út, og það fyrsta sem við sjáum, fyrir utan hendur fæðingarlæknis, eru táslunar á mömmu okkar. Það er ekki fyrr en nokkrum mínútum seinna sem við fáum að sjá framan í hana. Þetta er hægt að styðjast við í nokkurn tíma þar sem að smábörn eyða miklum tíma á gólfinu og sjá fætur og tær ættingja og gestgangandi.

Annað dæmi: Nuddarar og sjúkraþjálfarar.

Ég mæti í tíma til sjúkraþjálfara. Sé framan í hana í kannski 30 sek meðan hún heilsar mér og segir mér að skrattast í klefa 2. Eftir það er maður með hausinn í gati á bekk og sér ekkert annað en tærnar á henni.

Talandi um að mynda óheilbrigð tengsl við fólk sem er mikilvægt.
  1. Fyrstu kynni af aðal áhrifa valdi lífs þíns – Táslunar á mömmu.
  2. Komandi kynni af félagslega mótandi aðilum – Táslunar á ættingjum og vinum.
  3. Helstu sjónrænu kynni af meðferðaraðilum – Táslunar á sjúkraþjálfaranum þínum eða nuddara.
  4. Fyrstu tengsl við besta vin á fyrsta fylleríi – Tærnar hans þar sem hann stendur þér við hlið meðan þú liggur á hnjánum og ælir.

Þetta er ekkert einsdæmi og má rekja þetta allt yfir í kristna trú og múslímatrú. Fylgist með hvernig múslímar krjúpa djúpt við bænir, ef enginn annar en Allah myndir birtast þá myndu þeir fyrst sjá tærnar. Kristið fólk, krýpur í kirkju við táslur prestins.

Svona heldur þetta áfram út allt okkar líf þar til við drepumst. Hver er okkar síðasta sjón þegar við liggjum með lappirnar út í loftið alveg að drepast... jú.... táslur.

Reynum því að muna að halda tám okkar snyrtilegum... þú veist aldrei hverjum þú kynnist.