Monday, June 25, 2007

Vestur-landa-ævin-týri.

Skólastrákurinn fór ásamt sinni heitt elskuðu til Flórída nú ekki fyrir löngu. Mennningarsjokkið var gífurlega mikið og sterkt en áður en hann vissi af hafði fólk aðlagað sig að komu hans og fögru meyjar hans svo að lífið hélt sinn vanagang áfram í Flórída.

Dvöl Skólastráksins og fylgdarfrú hans entist rétt rúmar tvær vikur og er ekki hægt að segja annað en að ferðin hafi verið kostuleg í alla staði. Þar sem að hótel þykir ekki nógu fínt kom ekki annað til greina en að koma sér fyrir í lúxus húsi sem var búið öllu. Húsið var stórt og rúmgott með um það bil milljón svefnherbergjum og einni risastórri sundlaug. Með húsinu fylgdi bílskúr sem var ríkulega búinn og innihélt eitt stykki lúxusbíl.

Dagarnir þarna úti liðu hægt og rólega og er greinilegt að beiðni Skólastráksins og meyjar hans til tímaguðsins hafi komist til skila. Dagarnir runnu í eitt þarna úti og liðu í sæluvímu. Það var einn hængur á ferðinni en hann var sá að Skólastrákurinn er ekki enn orðinn fullvaxta karlmaður úti í Flórída að mati sumra tryggingafyrirtækja og neyddist hann til að vera farþegi hvert sem farið var. Hann stóð sig þó með prýði sem siglingafræðingur um götur Orlando og ekki má gleyma að þakka konunni í bílnum sem talaði við okkur parið og róaði okkur þegar illt var í efni.

Magic Kingdom, Epcot, Universal studios, Florida mall, Millenium mall, Black Angus Steakhouse, Publix, Wallmart, Winn-Dixie, Premium Outlets, Bud-light, Heineken, Hvítvín, Rauðvín, Súkkulaði, Ís, Sund, Sól, Fatakaup, DVD kaup, Bókakaup, Skókaup, Bensínkaup, Matarinnkaup, Svefn, Slökun, Gleði, Hamingja, Hlátur og Grín eru meðal þeirra orða sem hafa skotið rótum í huga Skólastráksins eftir þessa ferð.

Disneyworld var algjör snilld. Sú ferð tók einungis tæpar 15 klukkustundir. Byrjað var á því að fara í Magic Kingdom og skoðað og spáð og spekúlerað þar. Þegar því var lokið var stefnan tekin til Epcot, 2 ferðamátar urðu fyrir valinu. Ferja sem sigldi yfir manngert vatnið sem lá á milli Magic Kingdom og "tengistöðvarinnar" við Epcot. Þaðan var farið með einteina járnbraut. Epcot er nokkuð snotur og skemmtilegur garður, en var þó ekki eins framtíðarlegur og menn vildu meina. Smá uppfærsla á "nýjustu" tækni og vísindum væri ráðleg. Eftir Epcot var farið aftur í Magic Kingdom þar sem Skólastrákurinn snæddi ljúfengan kvöldverð með blossandi fögru ástkonu sinni og síðar um kvöld rölt um garðinn. Í lokin var fylgst með skrúðgöngu þar sem Mikki mús og Andrés önd og allir hinir vinirnir dönsuðu og sungu fyrir okkur heilaþvegnu túristana. Það má segja með nokkurri vissu að þetta hafi verið stærsta atriðið á efnisskránni þarna úti.

Við renndum einnig við í Universal studios sem er að mörgu leyti skemmtilegra heldur en Disney, en það er líka að meira gert fyrir eldri aldurshópa. Gífurlega skemmtileg ferð.

Skólastrákurinn ætlar ekki að hafa ferðalýsingu lengri að þessu sinni, enda eru komin mörg og skemmtileg orð. Þeir sem hafa áhuga á frekari upptalningu atriða úr ferðinni mega bíða spenntir.
Skólastrákurinn og lífsförunautur hans mæla sterklega með Orlando. Þau mæla þó ekki eins sterklega með flugi hjá Icadanlire (stöfum hefur verið víxlað til að vernda einokunaraðila á flugmarkaði Íslands)

Wednesday, June 20, 2007

Búrhval rak á land við Stokkseyri.

Tekið frá mbl.is 20.júní 2007: "Hræ af allt að 15 metra löngum búrhvalstarfi hefur rekið á land við Stokkseyri. Tilkynnt var um hvalrekann í dag og kannaði lögreglan aðstæður í fjörunni nú eftir hádegi. Hvalurinn hefur greinilega legið í fjörunni í einhvern tíma en er þó ekki farinn að rotna mikið."

Það eina sem skólastrákurinn hefur um þetta að segja er: Guði sé lof!

Lögreglan hefur sem betur fer mætt á svæðið. Þannig er mál með vexti að skólastrákurinn hefur nú undanfarna 3 mánuði verið í miklum þrætum við lögregluna á Íslandi. Rannsóknir hans á hvalreka í kringum landið síðastliðin 7 ár benda til þess að raðmorðingi er á ferð um hafið í kringum Ísland.

Skólastrákurinn hefur sett saman prófíl af manninum sem er líklegur sökudólgur.
  1. Hvítur og karlkyns

  2. Aldrinum 20-45

  3. Vanmáttarkennd gagnvart sjálfum sér.

  4. Á til með að taka óvænt bræðisköst.

  5. Líklega haldin ranghugmyndum. Kallar sjálfan sig Ahab í gríð og erg.

  6. Áráttukenndar hugsanir um hvíta hvali.

  7. Pípuhattur, væntanlega til að bæta upp fyrir stærð skutulsins.

Þessi maður er líklegur til að brjóta aftur af sér, og mun gera svo við fyrsta tækifæri. Lögreglan er komin á sporið og er á eftir honum. Það gerir hann reiðan og kveikir undir vanmáttarkennd hans. Hann er sífellt að leitu eftir "hinum eina sanna" eða "þeim hvíta". Hann drepur hvalina og kemur þeim fyrir í fjörunni og sviðsetur hvalreka.

Feitu fólki er ráðlegt að forðast sjóböð og þá sérstaklega albínó fólki.


Hafið augun opin.