Sunday, November 19, 2006

Áttu börn og buru...

Skólastrákinum þykir mikill heiður í því að tilkynna komu nýs barns í þennan heim. Þann 17. nóvember klukkan 3 að nóttu til fæddist 1.stk drengur. Hann kom í heiminn með keisara og var einar 17 merkur og 48cm.
Skólastrákurinn hefur því eignast frænda og getur ekki annað sagt en að hann sé mjög stoltur. Drengurinn er fyrsta barn Þrumuguðsins og meyju hans.

Þann 18.nóvember skrifaði drengurinn ungi undir 27 ára samning við skólastrákinn og mun því hefja ritferli sinn innan 6 mánaða á þessari síðu.

Skólastrákurinn óskar foreldrum innilega til hamingju og óskar þeim mikillar lukku og farsældar á komandi árum.
Þess skal einnig getið að skólastrákurinn er með bráðaofnæmi fyrir bleyjum og barnakúk, en er þó í afnæmingarmeðferð í augnablikinu í þeirri vona að geta einn daginn skipt um bleyjur á ungabörnum.

Tuesday, November 14, 2006

Peningar friða ekki hinn níska, en gera hann ágengari.

Nýverið tók Íslenska ríkið 120.000.000.000 króna lán. Ástæða þessa láns er tvíþætt, annarsvegar ætlar ríkið að auka stöðu sína í erlendri mynt og hinsvegar munu þar af 5.000.000.000 fara í ófyrirséðan kostnað vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Skólastrákurinn ræddi við heimildamann sinn innan Seðlabanka Íslands og fékk í kjölfarið rjúkandi heitar upplýsingar. Ástæða lánstöku ríkisins er allt önnur en ríkið gefur upp. Raunveruleg ástæða ríkisins er tvíþætt eins og áður var getið en raunverulegar ástæður munu vera þessar.

  • Nýverið vann Árni Johnsen stóran sigur í flokkskosningum. Árni er því pottþéttur inn á þing. Þeir 5 milljarðar sem voru gefnir upp sem ófyrirséður kostnaður vegna Kárahnjúkavirkjunar eru í raun og veru ófyrirséður kostnaður vegna komu Árna á þing. Talið er að ríkið muni þurfa þessa upphæð til að leiðrétta væntanlegan fjárhalla sem mun koma með setu Árna, en hann ætlar á næstu árum að byggja sér risastóra höll í Abu-Dhabi.
  • Restin af peningunum, eða 115 milljarðar munu fara í fjármögnun til frekari ofsókna á Baug. Nýverið á fundi ríkisstjórnar var rætt um að of litlum fjármunum hefði verið eitt í einelti hér á landi og þyrfti að ráða bót á því meini. Ríkisstjórnin gerir sér miklar væntingar um að geta knésett Baug og í kjölfarið farið að leita á Björgólfsfeðga. Bókhald ríkistjórnar sýnir að Björgólfsfeðgar hafi sloppið einkar vel út úr ofsóknum og munu því væntanlega 3 milljarðar fara í undirbúningsvinnu Björgólfsofsóknarnefndarinnar.

Þess má geta að ofsóknir ríkisstjórnar á komandi ári 2007 verða styrktar af Ekstrabladet.

Monday, November 13, 2006

Að vera fylltur fúllri fýlu

Skólastrákinum finnst það farið að vera mjög niðurdragandi að fara í kaffisöluna hérna í skólanum. Konurnar sem vinna þar yfirleitt eru svo fýldar og leiðinlegar að það hálfa væri nóg. Hann reynir að mæta þarna með bros á vör og hýr á brún en ekkert gengur eftir. Alltaf sama fýlan, það er kraftaverki líkast ef honum er boðið góðan daginn. Þetta er alls ekki nógu gott. Er einhver sérstök ástæða sem má finna fyrir þessu? Er þetta ættgengur erfðasjúkdómur sem gengur á milli sjoppukvenna?

Skólastrákurinn er á engan veginn sáttur við þessa framkomu og ætlar ekki að láta þetta viðgangast. Skólastrákurinn ætlar í átak. Hann ætlar alltaf að bjóða góðan daginn og vera hress og kátur við starfskonurnar. Hann ætlar með þessari aðferð að ná fram lífeðlislegri svörun hjá konunum og sjá hvort þær geti brosað og jafnvel hreyft augun að einhverju marki.

Þetta er ekkert grín! Fyrir utan það að skólastrákurinn sé viss um erfðafræðilegan þátt í þessum fúlheitum þá er hann einnig viss um að svipbrigðsleysin hjá sjoppukonunum megi rekja til botox. Jú, mælingar á sýrustigi kaffidrykkja sem boðið er uppá sýna að efnið Botofýlíumoxileiðinlegsín eða BOTOX sé til staðar í kaffibrúsum í hættulega miklu magni. Starfskonurnar meðhöndla umrædda brúsa 7-12x á dag ásamt því að neita kaffidrykkja beint úr þeim, þær eru því í hóp sem á auknar líkur á að verða fýldur og leiðinlegur.

Frekari niðurstaða er að vænta frá rannsóknarstofu Skólastráksins, en þangað til er fólk hvatt til að þynna skólakaffið sitt út með eftirfarandi hlutum.

  • Vatni
  • Mjólk
  • Sykri
  • Prozak
Þess má einnig geta að Skólastrákurinn hefur breytt útliti síðunnar í síðasta skipti í bili, enda er hann kominn með leið á þrotlausri leit hins fullkomna útlits.

Takk fyrir.

Thursday, November 09, 2006

Paradigmatic information processing.

Ég sit í tíma í sögu sálfræðinnar. Kennarinn hefur verið að útskýra Paradigm síðastliðnar 20 mínútur með þeim fyrirvara að Paradigm sé bull og þótt það séu til meira en 23 útskýringar á hugtakinu þá á það ekki við neitt sem við erum að tala um.Þrátt fyrir þetta sækja á mig hugsanir. Hugsanir um risavaxnar rottur.
En núna er kennarinn farinn að tala um gufuvélar, svo ég ætla að hlusta á hann. Orð eins og stýrifræði, paradigms, heimspeki og gufuvélar boða gott.

Takk fyrir

Sunday, November 05, 2006

Að gefnu tilefni...

Vegna kvörtunar sem barst í dag þann 5. nóvember hefur skólastrákurinn yfirfarið nýlegustu texta á þessari litlu vefsíðu. Í kvörtuninni kom fram að mikið væri stafsetningarvillur og annan slíkan viðbjóð. Hefur höfundur því farið yfir síðustu sjö færslur.
Færsla: Í fréttum er þetta helst..
...og rússnesku mafínunni. Stafavíxl. Hér má segja að um innsláttarvillu sé að ræða.
...Mjólkusamsalan er ekki talin vera viðriðin málið. Vantar R. Innsláttarvilla.

Færsla:Geimverur hafa gert innrás.
...Ullinn hafði engin áhrif á geimverunar. Hér er um ljóta villu að ræða, orðið ætti að skrifast sem svo: Geimverurnar.

Færsla: Tíminn líður.
...sem er nokkuð ógvekjandi. Hér vantar N í orðið ógnvekjandi. Innsláttarvilla.

Færsla: Hugleysi...
Hér er engar stafsetningarvillur að finna.

Færsla: Nördalegt neyðarástand.
Nátturusinnaðir nördar höfðu ruðst... Hér er orðið nátturusinnaðir skrifað vitlaust því það vantar Ú. Orðið ætti að skrifast sem svo: Náttúrusinnaðir.
...í þeim tilgangi að hreinsa skólan. Hér er erfitt að segja til hvort um sé að ræða innsláttarvillu eða stafsetningarvillu. Orðið ætti að skrifast sem svo: Skólann.
...og óhreinan raftækjareykin. Hér er um stafsetningarvillu að ræða því það vantar eitt N. Orðið ætti að skrifast sem svo: Raftækjareykinn.
...niður í asmaköstum. Hér er spursmál um hvort þetta sé í raun stafsetningarvilla. Samkvæmt ráðleggingum er sagt að orðið ætti að vera astmaköstum en ekki asmaköstum. Nútímaleg íslenska eða ekki, enda er orðið astmi tökuorð held ég.

Færsla: Margt býr í myrkrinu.
... einstaka snökkt og kjökur. Hér er orðið snökkt skrifað vitlaust. Orðið á að vera snökt með einu K en ekki tveimur.
Hálsin þinn stífnar þegar... Hér er nokkuð gróf villa á ferð og algjörlega óafsakandi. Hér vatnar eitt N í orðið Hálsinn.
...tvær ókunnungar sterkar. Hér er ekki um stafsetningarvillu að ræða. Innsláttarvilla.

Færsla: Apar koma til varnar.
Hér er enga stafsetningarvillu að finna.

Skólastrákurinn er að sjálfsögðu niðurbrotinn maður eftir þessa yfirferð. Þótt það sé greinilegt að oft sé um innsláttarvillur að ræða þá eru að læðast inn slíkar kjánalegar stafsetningarvillur að ekki er víst að skólastrákurinn muni ná að jafna sig á næstunni.

Skólastrákurinn biður lesendur sína innilega afsökunar og vonar að þeir sjái sér fært að fyrirgefa honum. Notendur geta nálgast endurgreiðslu í tengslum við netnotkun sem hefur farið í lestur þessarar síðu hjá þjónustuaðilum sínum.

Takk fyrir.