Thursday, March 29, 2007

Búri ehf kynnir Barnabúr.

Nútíma samfélag er meira en firrt. Börn okkar eru stanslaust í fjölmiðlum, misnotkun, lélegar einkunnir, dónaskapur os.frv os.frv. Í kjölfar þess að algjört fjölmiðlafár hefur ríkt varðandi þessi málefni hafa foreldrar orðið ofurnæmir, taugaveiklaðir, hræddir og stressaðir. Heilsu barna þeirra fer stanslaus hrakandi, á meðan ósonlagið þynnist og þynnist þá fitna börnin okkar meira og meira. Þau eru orðin dónaleg vegna þess að þau eyða fleiri klukkustundum á dag í Play-X-Station-Box tölvum, sýna lakari og lakari árangur í skóla vegna lesblindufaraldurs og sinnuleysi foreldra. Kennarar eru hættir að sinna börnunum meðan barnaníðingar leika lausum hala allstaðar og bjóða upp á nammi.

Þið þurfið þó ekki að hafa meiri áhyggjur. Lausnin er komin, og hefur reyndar verið til staðar í lengri lengri tíma. Barnabúr njóta nú sífellt meiri vinsælda hér á landi, foreldrar hrannast í búðir til að kaupa þessi undratæki. Nú þurfa foreldrar ekki að hafa frekari áhyggjur af börnunum sínum.

Í búrunum eru öll þægindi sem hægt er að hugsa sér fyrir nútíma barnið. Færanlegir matardallar, 1L losanlegar vatnsflöskur, litlir speglar og önnur leikföng sem festa má á búrið eða hafa inn í því. Hægt er að velja um mismunandi tegundir botna, mjúkir með trémulningi eða harðir með fylltum pappa.

Barnaverndaryfirvöld standa á gati gagnvart þessum búrum enda er um kraftaverkalausn að ræða.

ÉG hef nú bara aldrei séð annað eins, þetta eru undratæki. Með þessu áframhaldi verður hægt að uppræta hegðunarvandamál skólabarna án afskipta barnaverndar. Sannkölluð guðsgjöf“

Nú nýverið kom ný tegund af búrum fyrir foreldra offeitra barna. Þessi búr, svokölluð Skinner búr, byggja á hagstæðum styrkingarskilmálum fyrir barnið. Barnið er látið á hlaupabretti til að vinna sér inn fyrir fæðu og drykk. Hægt er að breyta styrkingarskilmálum, en lítill bæklingur fylgir með. Fyrir foreldra þeirra barna sem eru stjórnlaus oft á tíðum er hægt að fá búr með elektróðum í botninum, en þær gefa frá sér stuttan 2000 volta straum.

Langir biðlistar hafa myndast eftir búrunum og ríkir blómstrandi viðskiptalíf í kringum þessa iðju.

VARIST EFTIRLÍKINGAR.

Thursday, March 22, 2007

Jesú spilar ekki á Playstation

Bráðum fara fermingarnar af stað og allt verður vitlaust. Börnin fara að hrúgast í kirkjunnar til að láta ferma sig. Það fallega við fermingar í dag er það að börnin láta ferma sig vegna þess að þau vilja það. Hverjum gæti dottið í hug að hópþrýstingur spili þarna hlutverk? Það er töff að láta ferma sig. Maður fær að hitta vini sína á kvöldin á skipulögðum samkomum, hlusta á hentugan sannleika um Guð (þó ég haldi því ekki fram að ALLIR fái bara að heyra hið góða og sæta um Guð og Co.), tala um hvað maður fær í fermingargjöf, hvað það verður gaman að troða sig út af kökum og gosi, og síðast en ekki síst, tala um hvað það er yndisleg tilfinning að staðfesta trú sína og baða sig í ljósi og dýrð Drottins. Því út á það gengur fermingin, ekki satt?

Ég held að það sé algjörlega farið framhjá okkur hvað það þýðir að fermast. Jú vissulega eru alltaf einhverjir krakkar sem vita 100% hvað þau eru að fara út í. En ég hef enga trú að því að það sé einhver yfirgnæfandi meirihluti. Fermingin er orðinn sjálfsagður hluti af samfélagi okkar og það þykir óeðlilegt að fermast ekki. Ég man þegar ég fermdist þá ráku allir upp stór augu og voru strax viss um hvað hér væri á ferð. Hann Ólafur Kári er að fermast borgaralega. Hann ætlar sem sagt að komast upp með að sleppa milliliðnum í fermingunni (Guð) og fara beint í gjafirnar. Ættingjar mínir studdu ákvörðun mína 100% og voru ekkert annað stolt af því að ég hefði tekið ákvörðunina um þetta sjálfur. Utan að komandi fólk hugsaði annað.

Var ferming hér í gamla daga ekki meira staðfesting á trú barnanna og hálfgerð vígsla inn í heim fullorðinna? Var samfélagið í gamla daga ekki mun trúræknara heldur en í dag, þegar það var normið að dýrka Guð eða Jesú. Nú virðist öll spennan í kringum fermingu snúast um gjafirnar sem krakkarnir fá og mikilvægi þess að gera það sama og hinir vinirnir.

Hvort að kirkjan sé orðin of væg í þessum málefnum í dag eða að foreldrar ekki nógu duglegir við að upplýsa börn sín um raunveruleika fermingarinnar og merkingu hennar veit ég ekki. Það eina sem ég veit er að fyrir mér á ferming að snúast um trú og –siðfræðilega hluti en ekki efnislega kosti þess.

Wednesday, March 21, 2007

Pediophobia

Það er ekkert fallegt við dúkkur. Þær sitja í myrkrinu heima hjá þér með steinrunnið andlit og dauð augu. Hreyfingarlausar horfa þær út í tómið og stara. Stara á hluti og út í víddir sem við sjáum ekki, sitja þöglar og glotta. Á meðan þær glotta liggur þú upp í rúmi og heldur sænginni þétt upp að þér, því þú veist alveg að þetta er bara dúkka. Þetta er bara dúkka og dúkkur geta ekki gert okkur neitt illt. Þær bara sitja þarna og horfa. Og á meðan þú liggur þétt upp að sænginni þinni í myrkrinu og veltir fyrir þér afhverju þér finnst eins og dúkkan sé að stara á þig, starir í gegnum þig og inn í sálina þína. Hún situr og starir á sálina þína og sýgur úr þér lífskraftinn, þangað til að þú verður ekkert annað en hol skel. Það verður ekkert eftir í þér nema óttinn. Óttinn og hræðslan við það að hún horfi aftur á þig, stari, og taki síðustu mannlegu tilfinninguna þína burt.

Þú ferð fram úr rúminu og labbar að hillunni. Dúkkann situr enn og glottir. „Þetta er bara dúkka, hvað er ég að stressa mig?“ hugsar þú og teygir hendurnar fram. Það virðist eins og tíminn stoppi, allur kraftur rennur úr höndum þínum. Þú stífnar upp, svitnar, nærð ekki að anda. Þú horfir beint á dúkkuna og getur ekki hreyft augun. Varir hennar fara hreyfast, hausinn snýst í hring og skjanna hvít augun glennast upp. Augu hennar grípa þig, skyndilega hnígur þú niður, máttlaus, varnarlaus. Dúkkan horfir ennþá á þig, sýgur nautnalega síðustu krafta sálar þinnar, það eina mannlega sem er eftir í þér. Þú horfir enn í augu hennar, getur ekki vikið þér undan, dauðagrip augna hennar óumflýjanlegt. Lungun í þér lamast, köfnunartilfinning tekur völdin, tilfinning sprettur fram í líkamann í vorkunnarlegum krömpum. Þú iðar um á gólfinu eins og ormur á votri götu. Þú getur ekkert gert. Allt verður dimmt. Sálarkraftar þínir horfnir, ekkert eftir nema líkaminn, tóm skel.

Líkaminn þinn er orðinn hvítur og stífur, þú liggur hreyfingarlaus og starir með tómum augum út í loftið, eins og lífvana postulínsdúkka.