Friday, July 20, 2007

Íslenska leiðin - Rannsókn eftir Skólastrákinn.

Fyrir ekki svo löngu síðan var mikil umræða í fjölmiðlum um mótorhjólamenn og ofsaakstur þeirra. Sú umræða átti vissulega rétt á sér. Skólastrákinum finnst þó eins og að umræðan um hinn venjulega ökumann eigi sér ekki stað.

Skólastrákurinn hefur undanfarið orðið mikið var við dónaskap, tillitsleysi, glannaskap og kæruleysi í umferðinni. Í kjölfar þess fór hann í mikla rannsóknarvinnu og birtir hér með niðurstöður rannsóknar sinnar.

Hraði:
Mikið ber á hraðakstri hjá íslenskum ökumönnum. Eftir að hafa stöðvað ökumenn á förnum vegi og beðið þá um að ljúka stuttum spurningarlista komu eftirfarandi svör oftast fyrir.

  1. Ég er bara svo vanur að keyra þennan veg.

  2. Vegurinn er svo breiður og gott færi.

  3. Ég var bara að reyna að halda umferðarhraða.

  4. Mér finnst bara að það ætti að keyra hraðar hérna.

Glöggur lesandi sér greinilega að þetta eru bæði kjánaleg og óréttlætanleg svör að öllu leyti. Eftir að hafa greint gögnin og tekið endurtekin viðtöl við þátttakendur hefur skólastrákurinn komið með rétt svar. Svarið er nú ekki mikið flóknara en það að ýmist eru þessir ökumenn líklega ólæsir eða illilega lesblindir. Skólastrákurinn gerir sér fyllilega grein fyrir því að það er mjög flókið og erfitt að lesa á skilti þar sem eru stórir svartir stafir á gulum bakgrunni. Sérstaklega þegar ökumenn eru á öðru hundraðinu. Líklegt er að íslendingar, sem eru samkvæmt gögnum flestir ólæsir eða lesblindir, ráði ekki við það hugræna ferli sem þarf að öllu jöfnu að eiga sér stað við túlkun umferðarmerkja.

Gatnamót og umferðarljós:
Skólastrákurinn náði ekki tali af íslendingum á gatnamótum eða við umferðarljós. Ástæðan var sú að ökumenn voru önnum kafnir við að bíða eftir næsta bíl, svo hægt væri að svína. Algengt vandamál sem skólastrákurinn tók eftir var að ökumenn fórum ótt og títt yfir á rauðu ljósi. Lífeðlislegar rannsóknir hans á hvítum rottum gefa mögulega útskýringu á þessu. Sökum þess hversu “takmarkaðir” sumir íslendingar eru hafa þeir að öllum líkindum eytt drjúgum tíma í barnæsku í það að stara á sólina. Eftir að hafa starað svo lengi á rauð/gula sólina hafa ákveðnar andstæðufrumur í sjónberki eyðilagst og orsakað stanslausa græna eftirmynd. Þessi græna eftirmynd leggst svo yfir rauðu ljósin og heldur ökumaðurinn þá að það sé grænt ljós hjá honum.

Stefnuljós:
Annað lítt þekkt en engu að síður grafalvarlegt vandamál hjá íslenskum ökumönnum er notkun stefnuljósa. Samkvæmt heimildum skólastráksins hjá lögreglunni virðast margir ökumenn telja þetta vera skraut og nýta það einungis í kringum jólatíð. Vegfarendur þekkja væntanlega þá sjón að sjá hvern bílin á fætur öðrum út í kanti yfir vetratímann með þessi blikkljós í gangi. Önnur ástæða lítillar notkunar stefnuljósa getur verið að íslendingar eiga til með að dragast að öllu sem er skært og fallegt. Þá óttast ökumenn að einhver keyri aftan á þá þegar þeir noti stefnuljósin og sleppa þeim því í öryggisskyni.

Í kjölfar þessarar rannsóknar hefur Skólastrákurinn sett saman lista yfir nokkur atriði til að pirra íslenska ökumenn.

Keyrðu á löglegum hraða. Ef þú keyrir á 70 þar sem hámark er 70 eru allar líkur á því að næsti bíll keyri upp í afturendann á þér. Hafðu augun í baksýnispeglinum þannig nærðu góðu útsýni yfir andlit ökumannsins fyrir aftan þig.

Gefðu stefnuljós. Þetta er víst til þess að vekja óöryggi hjá öðrum ökumönnum í kringum þig, enda þekkja fæstir ökumenn þetta ljós.

Stoppaðu við STOP-merki og athugaðu hvort einhverjir bílar séu að koma áður en þú leggur aftur af stað. Slík skynsemi og löghlýðni fer óendanlega í taugarnar á hinum hagsýna íslendingi sem vill spara bremsuklossa og bremsuvökva á slíkum gatnamótum.

Gefðu séns og hleyptu bílum framfyrir þig eða hægðu á þér til að leyfa öðrum að klára að fara yfir gatnamót. Þessi aðgerð kemur í veg fyrir að aðrir ökumenn njóti þess að stofna sjálfum sér og öðrum í hættu og vekur óhemju mikla reiði.

Stoppaðu fyrir fólki við gangbrautir. Það er alltaf skemmtilegt að fylgjast með viðbrögðum gangfarandi þegar þetta gerist. Sérstaklega þegar þeir falla niður í jörðina og hnipra sig saman vegna ótta við það að þú ætlir að keyra yfir þá.

Þessi atriði og mörg önnur tengd skynsemi, tillitssemi, löghlýðni og greind eru góð leið til þess að pirra næsta ökumann. Prófaðu þetta og gáðu hvað gerist.
------------------------------------------------------------------------------------------------
Ps.
Þess má geta að nú fyrir ekki svo löngu lentu skólastrákurinn og heitt elskuð ambátt hans í því að það var flautað á þau. Ástæðan var sú að þau höfðu keyrt á 70KMH allan tímann meðan það var 70KMH hámarkshraði. Aldrei á ævi þeirra höfðu þau séð eins hneykslaðan ökumann.