Jesú spilar ekki á Playstation
Ég held að það sé algjörlega farið framhjá okkur hvað það þýðir að fermast. Jú vissulega eru alltaf einhverjir krakkar sem vita 100% hvað þau eru að fara út í. En ég hef enga trú að því að það sé einhver yfirgnæfandi meirihluti. Fermingin er orðinn sjálfsagður hluti af samfélagi okkar og það þykir óeðlilegt að fermast ekki. Ég man þegar ég fermdist þá ráku allir upp stór augu og voru strax viss um hvað hér væri á ferð. Hann Ólafur Kári er að fermast borgaralega. Hann ætlar sem sagt að komast upp með að sleppa milliliðnum í fermingunni (Guð) og fara beint í gjafirnar. Ættingjar mínir studdu ákvörðun mína 100% og voru ekkert annað stolt af því að ég hefði tekið ákvörðunina um þetta sjálfur. Utan að komandi fólk hugsaði annað.
Var ferming hér í gamla daga ekki meira staðfesting á trú barnanna og hálfgerð vígsla inn í heim fullorðinna? Var samfélagið í gamla daga ekki mun trúræknara heldur en í dag, þegar það var normið að dýrka Guð eða Jesú. Nú virðist öll spennan í kringum fermingu snúast um gjafirnar sem krakkarnir fá og mikilvægi þess að gera það sama og hinir vinirnir.
Hvort að kirkjan sé orðin of væg í þessum málefnum í dag eða að foreldrar ekki nógu duglegir við að upplýsa börn sín um raunveruleika fermingarinnar og merkingu hennar veit ég ekki. Það eina sem ég veit er að fyrir mér á ferming að snúast um trú og –siðfræðilega hluti en ekki efnislega kosti þess.
|