Sunday, January 07, 2007

Syndum spilltur eymdarlýður...

Samkvæmt Transparency International er Ísland í fyrsta sæti hvað varðar spillingu ásamt tveimur öðrum þjóðum. Samkvæmt þessum niðurstöðum ætti ekki að vera mikil spilling á Íslandi.

Þegar könnun var gerð á Íslandi voru þáttakendur beðnir um að meta hvort þeir teldu spillingu eiga sér stað í íslenskri pólitík. 1 þýddi enginn spilling og 5 þýddi mjög mikil spilling. Íslensk pólitík fékk einkunina 3,3 en einkageirinn kom í kjölfarið með einkuninna 3,1. Íslendingar telja spillingu hafa verið svipaða síðastliðin 3 ár og telja hana haldast óbreytta næstu 3 ár. Þessar niðurstöður koma eilítið á óvart í ljósi þess að Ísland situr í fyrsta sæti.

Í kjölfar þessara niðurstaða birtist ristastór hola fyrir utan alþingi í dag. Upp úr holunni fóru að skríða ýmsir djöflar en að sögn vitna voru þeir allir klæddir í jakkaföt og voru með skjalatöskur. Það sem þótti enn skrýtnara var að þeir voru allir með einkabílstjóra.

Skólastrákurinn brunaði niður í bæ og náði viðtali við einn djöfulinn. Ástæðan sem djöfullinn gaf upp fyrir komu sinni var sú að hann ætlaði að læra af íslendingum. Orðrómur hafði borist til Helvítis um að íslensk pólitík væri rotin í gegn á mörgum stöðum og að íslenskir pólitíkusar byggju yfir einstökum hæfileikum til að fela þá staðreynd.

Geir H. Haarde boðaði djöflana á fund til sín og setti á laggirnar námskeið fyrir þá. Samkvæmt upplýsingamönnum skólastráksins eru eftirfarandi námskeið í boði:

1. Hvernig á að komast í þægilegt sæti hjá seðlabanka.
2. Hvernig setur maður saman flokk úr afgöngum í pólitíkinni.
3. Nefndavinna og mismunandi aðferðir til að tefja.
4. Hvernig á að komast hjá því að svara spurningum.
5. Að komast í mjúkinn.
6. Að komast í mjúkinn II framhaldsnámskeið.
7. Vinur – Ættingi – Þingmaður – Ráðherra – Sendiherra. Vegurinn að velgengni og þrepin 5.

Nánari upplýsingar um upplýsingar um námskeið má nálgast í síma 1-800-kjóstumig.