Saturday, January 27, 2007

Fatlaðir fá gula spjaldið!

Skólastrákurinn með frétt frá Þýskalandi!

Ungur karlmaður var rekinn af velli á HM í handbolta eftir að hafa upplifað kraftaverk og staðið upp.

Málið var þannig að umræddur strákur hafði verið lamaður alla sína ævi. Hann hafði fengið starf hjá Þýska landsliðinu sem “svalastrákur” en hann sér um að útvega vatn í brúsana fyrir leikmenn. Strákurinn fékk að öllu jöfnu að sitja við varamannabekkinn vegna góðs aðgengis fyrir hjólastóla.

Þegar 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fann strákurinn sannkallaðan íþrótta anda streyma yfir líkama sinn þegar þjóðverjar skoruðu. Strákurinn hoppaði upp af kæti og stóð í lappirnar. Þetta var sannkallað kraftaverk. Hann hafði ekki staðið í meira en 10 sekúndur þegar dómari flautar og stöðvar tímann. Drengurinn fær aðvörun og 2 mínútur útaf!

Samkvæmt reglum mega ekki fleiri en einn leikmaður standa á hverri stundu við varamannabekkinn. Eftir hörð mótmæli stráksins og þjálfara liðsins var honum vísað af velli og beint í sturtu.

“ Ich bare veisen ikkert. Ich bare standen upp und hoppen auf das marken bevast skorent. Ich tarven ikke lenguren ge-note das hjolenschtol und kan gibe das wasser auf mine fotts.” Þetta sagði strákurinn, Hermann Von Hjolstoltz, í einkaviðtali við skólastrákinn. Það er óþarfi að taka fram að hann er vægast sagt í sjokki eftir þessa lífsreynslu.

Sannkölluð kraftaverkatíð hefur gengið yfir á HM tíðinni í handbolta. Frakkar töpuðu nú um daginn fyrir Íslendingum og í dag tryggðu þeir sér sæti í 8-liða úrslitum.

Þessi sending var frá skólastrákinum í Þýskalandi.

Áfram Ísland
Sýnið hvað þið getið
Með boltann í netið.

Monday, January 22, 2007

Búskmenn Berjast gegn Brautarbræði

Skólastrákurinn hefur ekkert getað bloggað í smá tíma vegna átaka sem hann lenti í við frumbyggja í Afríku. Skólastrákurinn var að vinna grein í tengslum við brautabræði (road rage) og ákvað því að skella sér til Afríku, staðarins þar sem hjólið var fundið upp.

Á þriðja degi ferðar minnar í skóginum varð á vegi mínum tígrisdýr sem því miður virtist vera nokkuð hungrað. Skólastrákurinn var vel þegin tilbreyting í matseðilinn, þ.e.a.s. hvítt kjöt. Til allrar hamingju var ég í nýju Adidas hlaupaskónum mínum og náði því ágætis forskoti á kvikyndið. Til allrar ólukku þá hljóp ég beint inn í lítið þorp sem hafið verið falið fyrir manninum í árþúsundir.

Íbúar þorpsins voru afkomendur þeirra sem fundu upp hjólið og þarf því varla að taka fram að þeir tóku umferðarreglunum mjög alvarlega. Umferðarreglunar sem um ræðir eru ævafornar og komu fram 40000 f.kr. Sökum stífra reglna varðandi umferðina og sérstæða einangrun þorpsins eru umferðarreglunar orðnar að trúbrögðum hjá þessum ættbálki.

Þegar ég kom hlaupandi á blússandi ferð þá sinnti ég ekki ævafornri stöðvunarskyldu við mörk þorpsins. Þorpsbúarnir fönguðu mig í net og hentu mér í dimman kofa þar sem ég þurfti að dvelja við í heila viku á samskipta við fólkið. Það eina sem ég fékk var vatn og ökukennslubækur. Til allrar hamingju voru bækurnar gerðar úr laufum og stafirnir skrifaðir með afgangs kjötseyði úr kvöldmati þorpsbúa og gat ég því borðað bækurnar jafn óðum og ég las þær. Brainfood.

Ég lærði tungumálið og var tekinn í þeirra hóp. Þar lærði ég umferðarreglurnar, siðfræðina á bakvið umferðina og lærði um þá flóknu líffveru sem umferðarmenningin er. Þegar ég hafði loksins lært að gefa stefnuljós, veita séns við akreinaskipti og síðast en ekki síst, lært að stoppa á rauðu ljósi voru þorpsbúar tilbúnir að sleppa mér.

Nú er ég kominn heim og hef hafið að dreifa út boðskap umferðarlaganna. Þetta er lífsreynsla sem hefur breytt mér og gert mig að betri manni. Boðskapinum skal dreift um alla þjóðina og hef ég fengið til liðs með mér lögregluna á íslandi.

Ég vil þakka íbúum þorpsins og höfðingja þeirra, Bíb bíb úm bala. Kona hans ZH-351 fær sérstakar þakkir fyrir góðan mat og sonur þeirra og lærimeistari minn, Brummbrumm Brens!Benz, fær mestu þakkirnar. Án hans kynni ég ekki að keyra.

Takk fyrir.

Sunday, January 07, 2007

Syndum spilltur eymdarlýður...

Samkvæmt Transparency International er Ísland í fyrsta sæti hvað varðar spillingu ásamt tveimur öðrum þjóðum. Samkvæmt þessum niðurstöðum ætti ekki að vera mikil spilling á Íslandi.

Þegar könnun var gerð á Íslandi voru þáttakendur beðnir um að meta hvort þeir teldu spillingu eiga sér stað í íslenskri pólitík. 1 þýddi enginn spilling og 5 þýddi mjög mikil spilling. Íslensk pólitík fékk einkunina 3,3 en einkageirinn kom í kjölfarið með einkuninna 3,1. Íslendingar telja spillingu hafa verið svipaða síðastliðin 3 ár og telja hana haldast óbreytta næstu 3 ár. Þessar niðurstöður koma eilítið á óvart í ljósi þess að Ísland situr í fyrsta sæti.

Í kjölfar þessara niðurstaða birtist ristastór hola fyrir utan alþingi í dag. Upp úr holunni fóru að skríða ýmsir djöflar en að sögn vitna voru þeir allir klæddir í jakkaföt og voru með skjalatöskur. Það sem þótti enn skrýtnara var að þeir voru allir með einkabílstjóra.

Skólastrákurinn brunaði niður í bæ og náði viðtali við einn djöfulinn. Ástæðan sem djöfullinn gaf upp fyrir komu sinni var sú að hann ætlaði að læra af íslendingum. Orðrómur hafði borist til Helvítis um að íslensk pólitík væri rotin í gegn á mörgum stöðum og að íslenskir pólitíkusar byggju yfir einstökum hæfileikum til að fela þá staðreynd.

Geir H. Haarde boðaði djöflana á fund til sín og setti á laggirnar námskeið fyrir þá. Samkvæmt upplýsingamönnum skólastráksins eru eftirfarandi námskeið í boði:

1. Hvernig á að komast í þægilegt sæti hjá seðlabanka.
2. Hvernig setur maður saman flokk úr afgöngum í pólitíkinni.
3. Nefndavinna og mismunandi aðferðir til að tefja.
4. Hvernig á að komast hjá því að svara spurningum.
5. Að komast í mjúkinn.
6. Að komast í mjúkinn II framhaldsnámskeið.
7. Vinur – Ættingi – Þingmaður – Ráðherra – Sendiherra. Vegurinn að velgengni og þrepin 5.

Nánari upplýsingar um upplýsingar um námskeið má nálgast í síma 1-800-kjóstumig.

Saturday, January 06, 2007

Skilnaður skekur skilningslausa þjóð

Eftir að upp komst að Magni og eiginkona hans Eyrún ætla að skilja hefur riðið yfir bylgja af skilnuðum hér á litla Íslandi. Ung börn, eftir að hafa lesið yfirlýsingu Magna og Eyrúnar í DV, hafa í tugatali ákveðið að sækja um skilnað við foreldra sína.

Í viðtali við nokkra foreldra kom m.a. annars þetta fram: „Tjah, ég veit nú ekki alveg hvað ég á að segja. Eftir að litla stelpan okkar kláraði grunnskóla þá hefur hún bara verið að fjarlægjast okkur. Hún segir að við séum ekki nógu hipp og kúl. Við erum bara orðlaus.“

Nokkur dæmi eru um það að börn hafi ekki skilið við foreldra sína að borði og sæng en þó hótað því að flytja burt og fá forræði yfir hundinum. Þó eru örfá grófari dæmi um það að börn hafi orðið sér úti um fölsuð skilríki og látið pússa sig saman og farið síðan beint niður á skrifstofu sýslumanns og sótt um skilnað.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur líst yfir neyðarástandi. Hann hafði síðdegis í dag samband við Háskóla Íslands og óskaði þess að fleiri lögfræðinemar yrðu tímabundið útskrifaðir til að anna skilnaðareftirspurn.

Samkvæmt upplýsingum hagstofu voru skilnaðir á árunum 2001-2005 samtals 1076. Gert er ráð fyrir að þessi tala muni áttfaldast á næstu vikum ef ekkert verður að gert.

Þegar skólastrákurinn nálgaðist eitt barnapar sem hafði nú sótt um skilnað 5 sinnum síðastliðinn sólarhring og spurði um ástæðu fékk hann svarið: „Við bara ráðum ekkert við þetta. Við erum bara börn og getum ekki hugsað rökrétt. Þegar við sjáum eitthvað í fjölmiðlum verðum við bara að gera það. Hraði nútímafjölmiðla í firrtu samfélagi okkar hefur umturnað veikburða og mótanlegum hugum okkar, við höfum ekki um neitt annað að velja en að falla að norminu sem fjölmiðlarnir setja okkur.“

S.Ö.K.K.E.R eða Samtök Önugra Karla Kvenna og Einhverra Reykvíkinga hafa sagt að það sé ekki hægt að kenna foreldrum um slíka atburði. „Foreldrar hafa akkúrat enginn áhrif á börn sín. Uppeldi kemur málinu ekkert við og foreldrar geta á engan hátt útskýrt fyrir börnum sínum það sem þau lesa eða sjá í sjónvarpi. Þetta er vonlaus barátta.“ Aðspurð að því hvernig þau gætu fullyrt um þetta vísuðu þau Skólastrákinum á sálfræðinga félagsins sem sögðu: „Við lásum það í bók.“

Þegar þessi grein er skrifuð er ástandið ennþá alvarlegt. Foreldrar eru beðnir um að fylgjast vel með börnum sínum og hafa lélegar afsakanir á reiðum höndum þegar lögregla yfirheyrir þá um væntanlegar ástæður skilnaða.