Monday, September 11, 2006

Óhagstæðir styrkingarskilmálar fyrir háskólanám.

Nú er svo komið að ég er að stúdera sögu sálfræðinnar. Ég hef tekið eftir því að þegar ég les bókina í þessu fagi, þá leitar yfir mig þessi svakalegi svefnhöfgi. Þetta lýsir sér þannig að maður er að gera eitthvað, og sofnar svo allt í einu. Ástæðan fyrir þessu er einföld og liggur í uppeldinu hjá mörgum börnum.

Mörg börn eru alin upp við það að sögur séu lesnar fyrir þau rétt fyrir svefninn. Það er allt gott og blessað. Það þjónar vissulega sínum tilgangi, enda sofna þau fljótt og þumalputtareglan er jú, því fyrr sem þau sofna því fyrr halda þau kjafti.

Ókosturinn við þetta kerfi er sá að þetta fylgir okkur út alla okkar mannsævi. Það vottar fyrir þessu á öllum skólastigum ævigöngu okkar. Leikskóla, grunnskóla, menntaskóla og svo loks háskóla.

Við getum sett þetta upp í lítið módel.

Helstu hugtök: ÓÁ (Óskilyrt áreiti)
SÁ (Skilyrt áreiti)
ÓS (Óskilyrt svörun)
SS (Skilyrt svörun)

Mamma kemur með bók og les sögu{ÓÁ} - - - - Barnið sofnar {ÓS}

Þetta gerist nokkrum sinnum og barnið fer að para saman söguna og þreytu. Síðan gerist þetta:

Barnið sér sögubók{SÁ} og verður þreytt og sofnar {SS}

Þetta fylgir okkur út í gegnum lífið, og er stórfengilegur galli. Hættum að lesa fyrir börnin okkar, við eigum betra skilið.

Við erum ekki hundarnir hans Pavlovs.